Gullmiðadagurinn 2015

moiss

Gullsmiðadagurinn er n.k. laugardag, 17. október. Þá munu gullsmiðir hreinsa uppáhaldsskartgrip viðskiptavina frítt. Búast má við að hreinsivörur verði á tilboði og gullsmiðir í hátíðarskapi. Því er kjörið að heimsækja þinn gullsmið og fá fría þjónustu og góð ráð um umhirðu fagurra muna.

Ágætu gullsmiðir

Þriðjudaginn 13. október kl. 19:00, á Sólon í Bankastræti 7a (efri hæð) ætlar félagið að halda örstuttan félagsfund. Aðalefni kvöldsins er erindi sem fræðslunefnd FÍG ætlar að bjóða okkur uppá. Einnig ætlar Sigurður Ingi Bjarnason í SIGN að segja okkur frá birgðakerfi sem hann hefur verið að nota í sínum rekstri.

Við hvetjum alla til að mæta og hlusta á Inga, hann hefur frá mörgu upplýsandi að segja. Veist þú hvað þinn tími kostar? Við sölu á vöru, eru allir þættir teknir inn í verðlagningu?

Með bestu kveðju,

Stjórn og fræðslunefnd FÍG

Ágætu gullsmiðir

Í tilefni af stórafmæli mínu opna ég sýningu á nytjahlutum úr silfri laugardaginn 3. október. Sýningin verður á Torginu í Þjóðminjasafninu og stendur yfir dagana 3. til 18. október á opnunartíma safnsins.

Með góðri kveðju

Stefán Bogi Stefánsson

Bleika slaufan

img1

Erling Jóhannesson hönnuður og silfursmiður hannaði bleiku slaufuna í ár. Hann rekur verslun sína og verkstæði í Aðalstræti 10, elsa húsi Reykjavíkur. Þar hefur hann skapað afslappað og notalegt umhverfi, sem gaman er að heimsækja. Erling vann hugmyndasamkeppni sem var haldin af Krabbameinsfélagi Íslands í samstarfi við Félag Íslenskra gullsmiða í apríl síðastliðnum um hönnun slaufunnar og lýsir hann formi hennar þannig; “Þessi slaufa er lítið samfélag, samfélag sem stendur með þér, heldur í hönd þína þegar á bjátar”. Bleika slaufan 2015.

Til hamingju heiðursfélagi

JL

Jóhannes Leifsson gullsmiður og heiðursfélagi Félags íslenskra gullsmiða verður 95 ára þann 6. júlí n.k. Félag íslenskra gullsmiða óskar honum og fjölskyldu hans hjartanlega til hamingju. Í bókinni Gullsmiðatal frá 1990 segir að Jóhannes sé fæddur þann 6. júlí 1920 á Ketilstöðum í Hvammssveit Dalasýslu. Faðir hans var Leifur Grímsson bóndi og móðir hans var Hólmfríður Sigurðardóttir húsfreyja. Jóhannes lauk sveinsprófi 1946 og stundaði framhaldsnám í Danmörku og Svíþjóð. Eigið verkstæði frá 1952. Hann var formaður FÍG um árabil og gengdi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Jóhannes er nú sestur í helgan stein eftir drjúgt dagsverk og þakkar Félag íslenskra gullsmiða honum farsæla samfylgd.

Nýsveinar 2015

sveinar2015

Myndarlegur hópur nýrra gullsmiða við athöfn í Húsi atvinnulífsins við Borgartún þann 4. júní. Myndin var fengin að láni frá Önnu Maríu gullsmið en einn nemanna, Lena l.t.v., útskrifaðist frá henni.

Sumarferð FÍG

Kæri félagi,

Félag íslenskra gullsmiða ætlar að fara í stutta, en skemmtilega rútuferð miðvikudaginn 13. maí kl. 18:20 (frí daginn eftir)

Stefnan er tekin á blómabæinn Hveragerði, þar mun ísdrottningin og formaður Samtaka iðnaðarins Guðrún Hafsteinsdóttir hjá Kjörís taka á móti okkur og segja okkur frá sögu fyrirtækisins. Eftir heimsóknina ætlum við að snæða létt í Hverargerði og áætlaður komutími til Reykjavíkur um kl. 23:00

Rútan mun stoppa á þremur stöðum á leið sinni út úr bænum og pikka upp félagsmenn sem eru:

18:20 – 101 Hótel, Ingólfsstræti. Hægt er að mæta fyrr og taka spjall.
18:30 – Borgartún 35, Samtök iðnaðarins (hægt að skilja bíla eftir þar)
18:45 – Shell bensínstöð við Vesturlandsveg.

Þátttökugjald í þessa frábæru ferð er 2500 kr. í því gjaldi er rúta og léttar veitingar á leiðinni austur.

Hver og einn sér svo um að greiða sinn kvöldverð, makar eru að sjálfsögðu velkomnir.  Við lofum frábærri skemmtun og vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta.

Vinsamlega skráið ykkur HÉR fyrir þriðjudaginn 12. maí.

Kveðja,
Nefndin