Lög félagsins

Lög Félags íslenskra gullsmiða

 

1. gr.

Félagið heitir Félag íslenskra gullsmiða. Starfssvið þess er

allt landið. Lögheimili þess er í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að efla samheldni meðal gullsmiða á

Íslandi, að koma í veg fyrir að réttur þeirra sé fyrir borð borinn

og að stuðla að öllu því, er til framfara horfir í iðninni.

3. gr.

Stjórn félagsins skipa: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri

og einn meðstjórnandi. Skulu stjórnarmeðlimir kosnir

til eins árs í senn, ásamt tveimur varamönnum. Kosning

skal vera leynileg. Varamenn hafa seturétt á stjórnarfundum

með tillögurétt án atkvæðisréttar. Á aðalfundi skal einnig

kjósa tvo endurskoðendur og í nefndir félagsins.

4. gr.

Aðalfundur skal haldinn í marsmánuði ár hvert og boðaður

með minnst 4ra daga fyrirvara í Reykjavík og nágrenni.

Annars staðar á landinu með 8 daga fyrirvara. Í fundarboði

skal geta helstu mála er fyrir fundinum liggja t.d.

lagabreytinga. Fundur er lögmætur ef lagalega er til hans

boðað.

5. gr.

Fundir skulu haldnir þegar þörf krefur. Stjórnin skal boða

til fundar þegar þurfa þykir, einnig ef minnst tíu félagar

krefjast þess. Lögmætur er fundur sem er löglega boðaður.

Um boðun aukafunda gilda sömu reglur og um aðalfund.

6. gr.

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála, annarra en lagabreytinga.

Til þess að lagabreytingar öðlist gildi, þarf 2/3

greiddra atkvæða lögmæts aðalfundar. Allar tillögur skulu

afhentar formanni skriflega.

7. gr.

Formaður skal boða til funda og stjórna þeim, eða skipa

fundarstjóra í sinn stað. Hann skal vinna að stefnumörkun

fyrir félagið og sjá um framkvæmd ákvarðana aðal- og

félagsfunda í samráði við stjórn. Varaformaður gegnir

störfum formanns í forföllum hans. Hann skal hafa eftirlit

með störfum hinna ýmsu nefnda félagsins og vera tengiliður

þeirra við stjórn. Ritari skal færa bók um allt það, sem

gerist á fundum félagsins og stjórnar og lesa upp fundargerð

í upphafi næsta fundar. Enn fremur rita bréf félagsins

í samráði við formann. Gjaldkeri skal sjá um varðveislu

sjóða félagsins í samráði við stjórn og skal vera ábyrgur

fyrir greiðslu reikninga þess. Meðstjórnandi starfar að

öllum tilfallandi málum er þurfa þykir með öðrum stjórnarmönnum

og tekur sæti þeirra í forföllum þeirra, eftir

ákvörðun stjórnar.

8. gr.

Stjórnin skal halda meðlimaskrá og færa inn á hana alla

nýja félaga. Þeir einir geta orðið félagsmenn, sem meirihluti

lögmætis félagsfundar samflykkir ef þeir;

1. eru meistarar í iðninni,

2. hafa sveinspróf,

3. hafa löglegt iðnbréf.

9. gr.

Sá sem óskar upptöku í félagið, sendir stjórninni skriflega

ósk um það og sækir um á þar til gerðum umsóknareyðublöðum

sem leggist fyrir næsta félagsfund til samþykktar.

Skal umsókninni fylgja meðmæli tveggja félagsmanna. Sé

umsækjandi samþykktur öðlast hann félagsréttindi þegar

á sama fundi. Umsækjandi greiðir ekki félagsgjald fyrir

fyrsta ár sitt í félaginu.

10. gr.

Heiðursfélaga getur félagið valið sér ef ástæður þykja til.

Þeir eru ekki gjaldskyldir og þurfa ekki að taka neitt starf

í félaginu, fremur en þeir vilja sjálfir, en hafa öll réttindi

sem aðrir félagsmenn.

11. gr.

Félagsmönnum er skylt að stimpla smíðisgripi sína með

nafnstimpli (eigin, meistara eða fyrirtækis) auk silfur eða

gullstimpils. Nýir og eldri stimplar skulu skráðir hjá

Neytendastofu og skal stjórnin halda spjaldskrá um þá

stimpla sem notaðir eru.

12. gr.

Innan félagsins skal starfa siðanefnd. Nefnd þessa skipi

formaður félagsins, formaður prófnefndar og formaður

markaðsnefndar. Starfssvið nefndarinnar skal vera að

kanna aga- og lögbrot félagsmanna ef einhver yrðu, vega

þau og meta og gefa út útskurð ef þurfa þykir. Nefndin

skal vera sáttanefnd milli félagsmanna í málum er upp

kunna að koma, og gera athugasemdir við óréttmæta

verslunarhætti. Jafnframt skal nefnd þessi vera dómnefnd

sé eftir því leitað af félagsmanni eða neytanda. Nefndin

kemur fram sem mats- og umsagnaraðili fyrir hönd félagsmanns

í opinberum málum, sé eftir því leitað.

13. gr.

Markaðsnefnd skal kosin á aðalfundi. Hana skipa þrír

félagsmenn. Nefndin skal marka stefnu til framtíðar í

markaðs- og auglýsingamálum. Nefndin starfar sjálfstætt

en í samvinnu við stjórn F.Í.G. og Samtök iðnaðarins

þegar þurfa þykir.

14. gr.

Enginn má skorast undan að taka að sér störf fyrir félagið,

nema gildar og rökstuddar ástæður liggi fyrir.

15. gr.

Árstillag skal ákveða á aðalfundi fyrir hvert komandi ár.

Allir félagsmenn skulu vera skuldlausir fyrir aðalfund

ella missa þeir atkvæðisrétt og kjörgengi næsta ár. Skuldi

félagsmaður tveggja ára tillag skal hann settur á aukaskrá

og fær ekki full réttindi nema hann greiði skuld sína að

fullu.

Félagsmenn sem náð hafa 70 ára aldri, eru undanskildir

árstillagskvöð.

16. gr.

Reglur um félagsmerki:

1. Félagið sjálft og einstakir félagsmenn mega

einir nota merki félagsins í rekstri sínum.

2. Félagsmerkið skal notað á þennan hátt:

a) sem auðkenni á verkstæði og verslanir

félagsmanna,

b) sem auðkenni á umbúðir þær, sem

félagsmenn nota í fyrirtækjum sínum,

c) sem auðkenni á bréfsefni, gjafakort og

annars konar eyðublöð,

d) sem auðkenni í auglýsingum félagsmanna

í blöðum og sjónvarpi.

3. Öll myndmót sem gerð eru af merkinu skulu

vera í eigu félagsins, en félagsstjórn skal lána

einstökum félagsmönnum mótin,

eftir því sem þörf er á.

17. gr.

Brot á lögum og samþykktum félagsins skal kært til

stjórnar sem getur síðan vísað málinu til siðanefndar til

umsagnar.

Brottrekstur úr félaginu skal leggjast fyrir næsta félagsfund

og því aðeins löglegur að 3/4 hlutar greiddra atkvæða

samþykki það. Úrsögn úr félaginu sendist stjórninni.

18. gr.

Leysist félagið upp, skal sjóður þess renna til líknarmála.

19. gr.

Með lögum þessum falla úr gildi öll eldri lög félagsins.

Reykjavík 20. mars 2004