Nýsveinahátíð 2018

Þær Sunna Björg Reynisdóttir og Alda Halldórsdóttir,  sem báðar luku sveinsprófi í gull- og silfursmíði síðasta vor, hlutu verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á glæsilegri nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur. Í viðtali við Morgunblaðið sama dag, 3. febrúar, segir Sunna frá því hvernig hún ákvað að hefja nám í faginu. Hún lærði hjá hinum kunna meistara Þorbergi Halldórssyni og einnig hjá Andy Kuhlmann, sem er gull- og silfursmíðameistari í Stokkhólmi. Sunna er iðnaðarverkfræðingur og starfar hjá Eflu verkfræðistofu. Í viðtalinu segir hún að gaman sé að geta gripið í gullsmíðina og séð hugmyndir verða að veruleika á nokkrum dögum í stað nokkurra ára. Alda Halldórsdóttir lærði hjá öðrum kunnum meistara, Önnu Maríu Sveinbjörnsdóttur sem hefur verið dugleg að senda frá sér mjög flinka gull- og silfursmiði.