Erindi Dóru Jónsdóttur um búning Alexandrínu Drottningar flutt í Þjóðminjasafni 1. apríl 2014.

Aðdragandi þess að farið var að skoða skautbúning Alexandrine drottningar var að samstarfsnefnd um íslenska þjóðbúninga, sem hafði starfað í rúm 30 ár, en var breitt í þjóðbúningaráð um aldamótin, hefur verið í samstarfi við önnur samskonar félög á Norðurlöndum síðan 1978 og hafa verið haldin þing til skiftis á öllum Norðurlöndunum. Síðasta þing sem haldið var hér á landi var 2006 á næsta ári verður þingið í Noregi og svo kemur röðin aftur að Íslandi 2018. Þegar ráðstefnan var haldin hér 2006 var umfjöllunin silfur eða öllu heldur málmskraut á þjóðbúningum. Í tengslum við þá ráðstefnu var haldin þjóðbúningasýning hér í Þjóðminjasafninu. 

 

Innskot  t.d. má geta þess að mjög fallegur íslenskur búningur, brúðarbúningur, sem

fjallað hefur verið um hérna er á Victoria&Albertsafninu í London, hafður þar í geymslu, ekki til sýnis. Sá búningur var fenginn hingað á þjóðbúningasýningu hér í safninu 1969 og vakti mikla athygli, enda eru það faldbúningar sem virðast njóta mestrar hylli hjá konum, sem eru að sauma sér þjóðbúninga í dag.

En til að halda okkur við efnið þá kom til tals að gaman væri að fá búning  Alexandrínu drottningar til að sýna í tengslum við ráðstefnuna. Samtök Iðnaðarins styrktu ráðstefnuna og sýndu því áhuga að fá búninginn hingað og vildu leggja meira af mörkum ef það væri hægt.

 Það var því haft samband bæði við Rósenborgarhöll og Kristjánsborgarhöll til að kanna hvar búningurinn væri geymdur og hvort þetta væri hægt. Þá kom í ljós að ekki lá ljóst fyrir hvar búningurinn væri, en varð komist að þeirri niðurstöðu að hann hefði verið afhentur Þjóðminjasafni Dana til varðveislu. Þar fengum við þær upplýsingar að skrautið, sem allt er smíðað úr 14 karata gulli (og því ekki hægt að tala um búningasilfur) er geymt þar á safninu, en búningurinn sjálfur, sem sagt fatnaðurinn er geymdur í safni í Brede, sem er gömul klæðaverksmiðja, sem hefur verið breytt í safn til að varðveita klæðnað og er það um 15 km fyrir utan Kaupmannahöfn.  Kistill hafði verið smíðaður til að varðveita búninginn, en honum hafði verið komið fyrir á enn einu safni og gafst ekki tími til að leita hann uppi. Að fá búninginn hingað hefði verið ansi mikill kostnaður og svo hefði þurft enn lengri fyrirvara, en hver veit nema við eigum einhverntíma eftir að fá hann hingað.

Í tengslum við ráðstefnuna í Svíþjóð 2009 var haldinn milliþingafundur 2008 til undirbúnings ráðstefnunni og vorum við Oddný fulltrúar þjóðbúningaráðs á þeim fundi og fengum þá tækifæri til að koma við í Kaupmannahöfn og skoða búning  Alexandrínu drottningar og taka myndir.

dora-alexandrina

Íslandsheimsókn 1921

 

1921 kom Christian X. ásamt drottningu sinni Alexandrine í heimsókn til Íslands. Þetta mun hafa verið í fyrsta sinn, sem ríkjandi drottning Íslands kom til landsins. Ásamt þeim komu  Friðrik krónprins, (faðir Margrétar Þórhildar) og Knútur prins.

Íslenskar konur tóku þá ákvörðun að sauma skautbúning til að gefa drottningu. Það munu hafa verið þær Kristín Vídalín Jacobsson, sem stofnaði kvenfélagið Hringinn og Sigríður Björnsdóttir, hún var systir Arndísar Björnsdóttur, leikkonu,  hún rak hannyrðaverslun Ágústu Svendsen í Aðalstræti, sem tóku ákvörðun um að hafa samband við konur um allt land.

Það hafa þær að öllum líkindum gert í gegnum kvenfélögin og heimilisiðnaðarfélögin. Á vissum stöðum á landinu mun hafa verið tekið við framlögum og því safnað saman. Í Reykjavík gat fólk komið í verslunina, þar var tekið á móti framlögum. Ekki virðist vitað hver heildarupphæðin var. Samið var við nokkrar konur um saumaskapinn. Erfitt er að finna heimildir fyrir því, hvernig þetta hefur gengið fyrir sig og hverjir voru fengnir til verksins. Baldíringin á treyjunni er merkt með stöfunum I.E. og K.J., sem þýðir Ingibjörg Eyfells og Kristín Jónsdóttir. Þær voru  vinkonur og þekktar hannyrðakonur. Það voru þær, sem um langan tíma ráku verslunina Baldursbrá á Skólavörðustíg 4. Það hefur verið talað um að 3 konur hafi komið að því að sauma samfelluna. Sólveig Eiríksdóttir frá Fáskrúðsfirði nam hannyrðir við skóla í Danmörku. Hún var nýkomin heim og bjó nokkur ár á Laugaveg 11 í Reykjavík. Hún mun hafa verið ein þessarra þriggja kvenna. Önnur gæti hafa verið Fríða Proppé. Ein tók að sér að sauma búninginn saman, önnur saumaði möttulinn. Nafn Elínar Andrésdóttur hefur komið upp, sennilega hafur hún saumað í samfelluna. Þegar talað er um skautbúninga, þá er pilsið jafnan nefnt samflla. Sóleyjarmunstur hefur alltaf verið vinsælt og mun það hafa verið vinsælast af þeim munstrum, sem Sigurður Guðmundsson teiknaði. En því var breytt og teiknað nýtt sóleyjarmunstur fyrir drottningarbúninginn, en ekki er vitað hver teiknaði. Einhverjar sáu um að sauma út í blæjuna, þar höfum við bara á síðustu dögum fengið þær upplýsingar að Fríða Proppé ( sem raunar hét Hallfríður) hafi saumað blæjuna. Því til sönnunar kom í ljós að þegar hún hafði saumað blæju uppgötvaðist að hún myndi vera of lítil, þar sem Alexandra var há kona og var því saumuð önnur blæja fyrir hana (þessi blæja er því til og er í vörslu fjölskyldu hér á landi)

 aðrar saumuðu útsauminn í stífaða brjóstið, einhver hefir saumað faldinn og faldhúfuna og gert faldhnútinn,  einnig var gerður lítill ilmefnapoki að sjálfsögðu með sóleyjarmunstri. En þessum búningi fylgir heilmikið skart og er það allt unnið úr 14 karata gulli svo ekki er hægt Að tala um búningasilfur. Það er allt smíðað með loftverki og voru gerðar sérstakar teikningar fyrir skartið í stíl við útsauminn á búningnum. Loftverk er drifsmíði, allt unnið úr plötum, en það þarf nú annan fyrir- lestur, ef það á að útskíra það. Einhver sagði mér að Guðmundur Víborg, gullsmiður í Reykjavík hafi gert teikninguna fyrir loftverkið (eða Jón Leví), hann var líka gullsmiður, ekki hefur fengist staðfesting á þessu. Kristín Björnsdóttir, þekktari sem frú Kristín Símonarson, var móðir Árna B.Björnssonar, gullsmiðs. Hún vildi að hann tæki að sér þetta verk. En tími til stefnu var mjög takmarkaður og þar sem hann hafði tekið að sér það verk fyrir Knút Ziemsen, bæjarstjóra, að smíða líkan af túrbínu Elliðaárvirkjunar, sá hann ekki fram á að komast yfir allt þetta á svo skömmum tíma. Hann hafði samband við Jóntan Jónsson, gullsmið, á Laugaveg 35 og spurði hvort hann vildi aðstoða sig við þetta. Jánatan samþykkti það. Vildi Árni þá að hann kæmi á verkstæðið til sín í Lækjagötu 2. Það vildi Jónatan ekki. Hann sagðist vera með sitt eigið verkstæði og menn í vinnu, þar af 2 nema, sem hann þyrfti að sinna, svo annað hvort myndi hann vinna þetta á sínu verkstæði eða sleppa því. Á verkstæði Jónatans var beltið með sprotanum smíðað. Einnig möttulpörin og ermahnapparnir. Jón Dalmannsson var þá nemi hjá Jónatani (á lokaári) og bað Jónatan hann að smíða hnappana. En Árni mun hafa smíðað spöngina og næluna og hugsanlega hefur hann gert það í samvinnu við Jónatan, því kona, sem þá bjó í næsta húsi, sagðist muna vel eftir, þegar Árni var að koma hlaupandi til Jónatans meðan á þessu verki stóð. Fyrir stuttu áttum við því láni að fagna að fá að sjá og taka ljósrit af gömlum teikningum Árna B. Björnsonar m. a. af spönginni Við stórfenglega veislu, sem bærinn hélt konungsfjölskyldunni og fylgdaliði hennar og ýmsum útlendum gestum, sem hér voru staddir, auk fjölda bæjarmanna (veislan fór fram í Iðnaðarmannahúsinu), bar drottningin íslenskan skautbúning, sem íslenskar konur höfðu fært henni að gjöf, forkunnar fagran og skrautlegan. Sagt var að gestirnir hefðu “gripið andann á lofti” af aðdáun, þegar drottningin kom í salinn í öllum skrúðanum.

 

Daginn eftir hingaðkomu þeirra var “Rafmagnsstöð Reykjavíkur” við Elliðaár opnuð af konungi. Í endurminningum Knud Ziemsens “Úr bæ í borg” má lesa eftirfarandi: Nokkru fyrir dagmál streymdu bílar inn að Elliðaárstöðinni. Kristján konungur X. og drottning hans voru í þeim, sem fyrir fór á eftir komu ýmsir úr fylgdarliði konungs, aðrir gestir bæjarstjórnar og bæjarfulltrúar. Eins manns saknaði ég, sá var Árni Björn gullsmiður. Þegar ég hafði leitt konung og drottningu í vélasalinn, en þar var dauðakyrrð, sá mikli Grótti, sem mala átti Reykvíkingum ljós vornætur sem vetrarkvöld, var aðeins ófarinn af stað. Nákvæmlega hálfri stundu fyrir dagmál setti Kristján konungur stærri túrbínuna af stað og drottningin þá minni andartaki síðar. Eftir að vélasalurinn hafði verið skoðaður, gengu gestir í kaffisal. Samtímis og ég gekk fram hjá dyrum vélasalarins, sá ég þar mann utangátta. Svo var hann móður, að hann fékk trauðla mælt og af honum bogaði svitinn. Var þar kominn Árni B. Björnsson gullsmiður og þótti mér vænt um. Ég hafði beðið hann að smíða bréfapressu úr silfri í líkingu stærri túrbínunnar, en hana ætlaði ég að gefa konungi til minningar um þennan atburð. En svo var naumur tíminn, að Árni B. Björnsson vakti um nóttina við að ljúka smíðinnni. Þegar hann ætlaði að grípa til bíls um morguninn, var engan að fá. Og því stóð hann nú þarna lafmóður og aðframkominn eftir sprettinn. –  enda búinn að hlaupa frá Lækjatogi inn að Elliðaám. Þegar ég hafði fært konungi bréfapressuna, snéri hann sér að konu sinni og sagði með barnslegum yl í röddinni;”Sjáðu bara, hvað mér var gefið.”

Pressuna geymdi konungur ætíð á skrifborði sínu í Amalíenborg.

Við innganginn í verslun Árna B. Björnssonar á Lækjartorgi var sandblásið í glerið Kgl. Hovjuveler. Þegar spurt var hvers vegna Jónatan hefði ekki líka haft þessa nafnbót, var svarið að þeim hefði verið sagt að þeir mættu sækja um að fá nafnbótina, en það hafði Jónatan ekki kært sig um að gera. Ekki er ólíklegt að móðir Árna hafi kvatt til þess að hann sækti um þetta.

Vitað er að drottningin bar þennan búning aftur við heimsókn þeirra hjóna 1926 og enn er þau komu til að vera á Alþingishátíðinmni 1930. Þetta kemur fram í skrifum um Kristólínu Krag hárgreiðslukonu, sem fengin var til að skauta drottningunni í öll skiftin. Hún fékk nafnbótina konunglegur hárgreiðslumeistari 1931. Prinsunum voru gefnar gullbúnar svipur, en ekki hafa fundist heimildir fyrir því, hver smíðaði þær, né heldur myndir af þeim.

 

Ath. grein ,,Skautbúnigur Alexandrínu drotningar Íslands 1921″ í Hlín 1967 á bls. 206 og 7.

 

http://da.wikipedia.org/wiki/Dronning_Alexandrine

Gamlar myndir frá konungskomunni.