Aurum hlaut Njarðarskjöldinn

Guðbjörg Kr. Ingvarsdóttir

Njarðarskjöldurinn hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar var veittur nú í byrjun ársins versluninni Aurum sem Guðbjörg Kr. Ingvarsdóttir veitir eins og kunnugt er forstöðu. Í frétt í Morgunblaðinu er sagt að Aurum hafi fest sig í sessi sem ein vinsælasta skartgripaverslun landsins og einnig hafi hún spurst afar vel út meðal ferðamanna. FÍG óskar Guðbjörgu til hamingju með glæstan árangur. Gaman er að geta þess að í fyrra var það Gullkúnst Helgu sem hlaut þessa eftirsóttu viðurkenningu.

11.11.11

11.11.11 í huggulegu kaffiboði gullsmiðanema í Tækniskólanum benti Dóra G. Jónsdóttir á áhugavert efni sem finna má undir Tenglar  hér til vinstri hliðar á síðunni.  Nemar, hafið þökk fyrir framtakið. Þarna myndast gjarnan skemmtileg tengsl innan greinarinnar sem ljúfur kaffi ilmur innsiglar.

Gullsmiðadagurinn

verður haldinn í tengslum við afmæli félagsins, 19. október, í fyrsta sinn n.k. laugardag þann 22. október.

Markmið Gullsmiðadagsins er vekja athygli á fagmennsku í greininni og fræða almenning um störf gullsmiða og mikilvægi þess að versla við faglærða.

Þetta árið ætla gullsmiðir að leggja áherslu á þrif og almennt viðhald á skartgripum og bjóða gestum og gangandi að koma með uppáhaldsskartgripinn sinn, fá létt þrif á honum og spjalla við fagmanninn

Nú sólin vermir hal og sprund.

Þegar sól hækkar á lofti dregur úr starfsemi félagsins. Kraftur einkenndi starfið í vor sem náði ákveðnu hámarki þegar heimasíða félagsins opnaði í sömu viku og sveinspróf var haldið. Óhætt er að segja að allir sem þar komu að máli hafi staðið sig með sóma; nemar, kennarar, nefndir og stjórn félagsins. Á óvissutímum er það til að styrkja okkur og efla með okkur bjartsýni að sjá kraftinn í unga fólkinu og góða samvinnu hinna eldri.

Ný heimasíða

Velkomin á heimasíðu Félags íslenskra gullsmiða. Fimmtudagurinn 26. maí 2011 er formlegur opnunardagur síðunnar.  Ætlunin er að hér verði vettvangur gullsmiða til að miðla upplýsingum og fróðleik um fagið.  Félagsmenn eru hvattir til að senda inn uppbyggilegt efni og skemmtilegt.  Stjórn, ritnefnd og netnefnd hafa unnið að síðunni undanfarnar vikur með ómetanlegri aðstoð Arnar Haraldssonar.  Til hamingju FÍG!

Sveinspróf

Þrír nemar þreyta nú sveinspróf í Tækniskóla Íslands,  Hönnunar og handverksdeild. Gullsmíðasveinarnir væntanlegu verða útskrifaðir föstudaginn 27. maí við hátíðlega athöfn sem Félag íslenskra gullsmiða stendur fyrir í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, kl. 19:00 .

Fyrsta færsla

Vissir þú að hægt er að draga 1 gr af gulli í 2.5 km langan vír sem þá er orðinn 5 míkron eða fimm milljónustu úr metra á þykkt.  Eins má þynna gull niður í 0.18 míkron, 3.4 gr af 23k blaðgulli af þessari þykkt þekur flöt sem er 1 fermeter.

Silfur hefur mannkynið nýtt í 6000 ár. Rómarríki þurfti 10.000 tonn af silfri í gjaldmiðil sinn á öðru árhundraðinu fyrir Krist. Stöðugleiki gjaldmiðilsins byggðist á nægu framboði á silfri. Um 1300 var sterling silfur gert að gjaldmiðli á Englandi. Ein skýring á orðinu sterling er að það sé komið frá Þýskalandi og dregið af nafni héraðsins Easterling.