Mat á gulli og silfri

 Mikið er rætt þessa dagana um kaup og sölu gamalla gripa úr gulli og silfri.

Íslenskir gullsmiðir hafa í gegn um aldirnar endurnýtt gamla muni og hafa eftir óskum neytenda tekið gamla muni í endurvinnslu.

Íslenskir gullsmiðir flytja inn efni til að vinna úr. Þetta efni er hægt að panta eftir ýmsum óskum. Hægt er að panta hreint gull og hreint silfur, sem er þá oftast afgreitt í litlum kornum (grain), sem miðast þá við 1000. Þetta er síðan blandað í ákveðnum hlutföllum. Mest er smíðað úr 14 karat gulli hér á landi og er það þá ýmist stimplað sem 14 k eða 585. Verð á þessum málmum hefur verið hátt á síðustu árum.

Þegar keyptir eru gamlir munir eru þeir í afar mismunandi ásigkomulagi. Þetta er efni, sem fyrst þarf að heinsa og yfirfara, það þarf að athuga kveikingar.

Einu sinni voru múrsteins og bismark skartgripir afar vinsælir og því mikið til af hálsfestum og armböndum í ýmsum breiddum og þykktum. Svona gripir eru með mörgum kveikingum, sem þýðir það að allir þessir litlu hlekkir eru kveiktir saman. Slaglóð heitir það, sem notað er til að kveikja saman hlekkina.

Það hefur jafnan sama styrkleika (14 karat) í samræmi við það, sem verið er að kveikja saman. En það er öðruvísi blandað til þess að hafa lægra bræðslumark. Þetta getur rýrt verðmæti hluta í endursölu. Þegar fólk vill selja gamla muni eru þeir metnir sem brotagull eða brotasilfur, sem hefur miklu minna verðgildi en hreinn málmur. Þar skifta líka máli svona atriði, sem þarf að meta. Ef  gullsmiður tekur svona hluti til að vinna úr þeim fyrir viðkomandi verður matið hærra fyrir eigandann, en það er metið í endursölu. Eins getur viðkomandi viðskiptavinur valið sér grip, sem hann vill kaupa og látið það gamla ganga upp í. Þannig fær kaupandinn líka meira fyrir efnið en að setja það beint í sölu sem brotaefni.

Safnanefnd

Félags íslenskra gullsmiða

Dóra G. Jónsdóttir

Helga Jónsdóttir

Sigmar Ó. Maríusson