Prýði, Hönnunarsafni Íslands 18. október til 25. janúar 2015.

prydi_2Félag íslenskra gullsmiða heldur upp á 90 ára afmæli sitt á þessu ári og er sýningin Prýði unnin í samstarfi við félagið af því tilefni. Á sýningunni eru gripir eftir 40 gullsmiði sem voru gefnar frjálsar hendur að smíða fyrir sýninguna eða velja úr eigin safni. Gullsmiðirnir eru á ólíkum aldri, þeir sem unnið hafa við fagið í áratugi og byggt upp atvinnurekstur og tekið til sín lærlinga, svo og yngra fólk sem sýnir við hlið meistara sinna og hefur á síðustu árum skapað sér nafn og sérstöðu með þátttöku í fjölda sýninga og rekstri vinnustofa eða verslana. Nýútskrifaðir gullsmiðir eru einnig meðal sýnenda og þátttaka þeirra er mikilvægur hluti þess sem sýningunni er ætlað að gera, að varpa ljósi á þá breidd sem ríkir í íslenskri gullsmíði í dag.

Smíðisgripir, corpus, eru fátíðari í dag en áður fyrr. Á sýningunni má þó finna glæsilegt dæmi um slíka nýsmíði er tengir saman nútíð og fortíð. Skartgripir skipa stærstan sess á sýningunni. Í þessum verkum gætir mikillar fjölbreytni og helst má flokka skartgripina eftir hefðbundinni nálgun í efnisvali annars vegar og hins vegar þar sem ögrandi andstæður byggja á óhefðbundnari efnum og formum. Nákvæm handverksþekking og listræn smíði skapa nýjar víddir á sviði skartgripahönnunar, í samræmi við ríkjandi strauma og stefnur í alþjóðlegri skartgripahönnun í dag.

Hönnun sýningar: Helga Sif Guðmundsdóttir.