Gullsmiðir bjóða mat á gulli

Vegna kaupa erlendra aðila og ófaglærðra á gulli vill FÍG – Félag íslenskra gullsmiða benda á að gullsmiðir á Íslandi kaupa brotagull og að alltaf má leita til innlendra fagaðila til að verðmeta hluti úr eðalmálmum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá FÍG.

„Íslenskir gullsmiðir hafa betri þekkingu til að meta hvaða muni fólk er með í höndunum heldur en ófaglærðir aðilar. Gripir eftir íslenska gullsmíðameistara enda jafnvel sem brotagull í höndum ófaglærðra þegar verðmæti í hlutum gætu verið talsvert meiri.

Þá bendir FÍG á að úr gömlu gulli má alltaf skapa nýjan hlut og eru íslenskir gullsmiðir viljugir að taka að sér slík verkefni. Þar sem innkaupsverð á gulli hefur verið í sögulegu hámarki undanfarin misseri er kjörið að fara þá leið til að hámarka verðgildi gullsins.“

mbl | 30.4.2012