Þriðjudaginn 18. febrúar kl. 12 mun Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður og listrænn stjórnandi sýningarinnar Silfur Íslands halda fyrirlestur í Þjóðminjasafninu. Í erindi sínu fjallar Steinunn um sýn sína og Páls Hjaltasonar hönnuðar, á þeim fjársjóði sem silfurgripir í Þjóðminjasafni Íslands eru og hvernig hugmyndir um uppröðun gripanna kviknuðu og þróuðust. Þá segir Steinunn frá samvinnu við sérfræðinga Þjóðminjasafnsins og flókinni framkvæmd þegar kom að uppsetningu á sýningunni en um tvö þúsund silfurgripir eru sýndir. Fyrirlestur Steinunnar er öllum opinn.