Hádegisfyrirlestur Gunnars Karlssonar

Þriðjudag 18. 3. flytur Gunnar hádegisfyrirlestur um Sigurð Vigfússon. Hann var forstöðumaður Forngripasafnsins, sem síðar fékk nafnið Þjóðminjasafn Íslands, frá því um 1880 til dauðadags 1892. Hann var af fátæku fólki kominn, ólæs 14 ára gamall samkvæmt vitnisburði sóknarprests og fór ekki í skóla. Síðar nam hann gullsmíði í Kaupmannahöfn og stundaði þá iðju í Reykjavík þangað til hann tók við safninu.

 

Hann gætti ekki aðeins Forngripasafnsins heldur kannaði fornleifar um mikinn hluta landsins og stjórnaði meðal annars fornleifagrefti á Þingvöllum. Eftir á hefur þetta starf Sigurðar orðið fyrir mikilli gagnrýni og skopi fræðimanna vegna trúgirni hans á Íslendingasögur. Í fyrirlestrinum er þessi meðferð á Sigurði könnuð og sýnt fram á að hann hafi unnið markvert rannsóknarstarf og varla staðið sig miður en hver annar háskólamenntaður fræðimaður.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis (ath. þessi tilkynning barst aðeins fáum stundum fyrir viðburðinn).